Vörur

Fyrirtækið

Hafa Samband

Vörur

Fyrirtækið

Hafa Samband

Vörur

Fyrirtækið

Hafa Samband

Annáll 2024

Annáll 2024

Annáll 2024

Einstakt ár vaxtar og þroska

Eftir strembið ár 2023 og rólega byrjun varð 2024 árið sem við hjá Snjallgögnum náðum öllum settum markmiðum, settum met í hverjum ársfjórðungi og sönnuðum okkur sem leiðandi fyrirtæki á sviði hagnýtrar gervigreindar.

Varan okkar, Context Suite, tók vaxtarkipp í þróunarsamstarfi við leiðandi íslensk fyrirtæki og er í dag þroskuð lausn sem nýtast mun fjölda vinnustaða í atvinnulífinu við að hagnýta gervigreind með einföldum, áhrifaríkum og ábátasömum hætti.

Vegferð atvinnulífsins í gervigreindarbættum rekstri er bara rétt að byrja.

Við kláruðum litla brúarfjármögnun á fyrri hluta ársins, fengum einn stofnandann aftur inn í fyrirtækið, fluttum í nýjar höfuðstöðvar, héldum vel heppnaða Snjallvöku í Iðnó, gerðum fyrstu áskriftarsamningana okkar, stækkuðum sérfræðingahópinn verulega og náðum jákvæðum rekstri.

Þetta var ekki auðvelt ár, en það skilur eftir ótal margt til að vera þakklát fyrir.

Förum aðeins nánar yfir sviðið.

Róleg byrjun

Fyrsti ársfjórðungur var rólegur á skrifstofunni. Barnseignarfrí og veikindafjarvera gerðu það að verkum að við vorum bara fjögur -- á víð og dreif um heiminn -- að vinna að þróun og aðlögun Context Suite fyrir viðskiptavini.

Þetta átti eftir að breytast mikið.

Súrefni á tankinn. Hluthafahópurinn stækkar

Við höfum frá upphafi verið einstaklega heppin með englafjárfesta. Þeir hafa fylgt okkur frá því að Snjallgögn var að þróa Quick Lookup og staðið þétt við bakið á okkur. Snemma vors var þó ljóst að okkur vantaði súrefni á tankinn til að nýta tækifæri sem höfðu opnast.

Landslið engla hefur fjárfest í Snjallgögnum.

Tveir nýir englar bættust í hópinn. Gísli Kr. Gíslason og Steinar Björnsson komu að borðinu með reynslu, uppbyggilegt en gagnrýnið viðmót og vilja til að aðstoða. Þetta eru eiginleikar sem við metum mikils við leit að fjárfestum.

Með enn metnaðarfyllri markmið fyrir árið hlupum við af stað inn í sumarið.

Fjölskyldan stækkar og týndur sonur snýr aftur

Á sama tíma kom Óli Páll aftur til starfa hjá Snjallgögnum. Hann hafði sagt skilið við Snjallgögn árið 2020 eftir að við tókum þátt í Startup Supernova. Endurkoma Óla Páls var mikill fengur og ráðning hans sú fyrsta af mörgum vel heppnuðum ráðningum ársins.

Við byrjuðum árið fjögur en enduðum það þrettán. Þar sem við, líkt og jólasveinarnir, toppuðum í desember.

Á þessu ári bættist alþjóðlegur hópur sérfræðinga við Snjallgagnafjölskylduna. Þetta eru hugbúnaðar-, máltækni- og gervigreindarsérfræðingar sem við erum afskaplega lánsöm að hafa fengið til liðs við okkur.

Narðahjörð Snjallgagna er á víð og dreif um allan heim.

Hluti þeirra vinnur eingöngu að vöruþróun Context Suite á meðan önnur vinna við aðlögun fyrir vaxandi hóp kröfuharðra viðskiptavina og samstarfsaðila.

Þróunarsamstarf á tilraunamarkaði

Fyrir sprotafyrirtæki er ómetanlegt að að þróa vörur í nánu samstarfi við viðskiptavini. Við höfum verið einstaklega gæfurík í þessu tilliti því Context Suite hefur frá upphafi verið þróað með nákvæmlega þeim hætti.

Í byrjun voru þróunarsamstarfsfyrirtækin þrjú, en við lok árs 2024 voru þau orðin rúmlega 10. Öll eru þau stór og leiðandi á sínu sviði. Að auki taka þau virkan þátt í samstarfinu og það skiptir okkur lykilmáli.

Context Suite er aðgengileg lausn sem hægt er að nýta við hagnýtingu margskonar gervigreindar og gagnavísinda. Henni er ætlað að bæta daglegan rekstur, sölu og þjónustu. Það er krefjandi að þróa svona almenna hugbúnaðarlausn því margbreytilegt notagildi og breiður markhópur eru ekki endilega kostir þegar leitað er að skýrri og markvissri leið á markað.

Við veljum þessa nálgun því að hugbúnaður eins og Context Suite mun reynast verðmætasta og áhrifamesta leiðin til að taka þátt í því umbreytingarskeiði sem nú er að hefjast.

 Helstu viðskiptavinir og samstarfsaðilar.

Það er ótrúlega verðmætt að fá að þróa Context Suite fyrir margvíslega notkun, viðfangsefni og vandamál. Það gerir vöruna okkar betri og aðstoðar við mat á mismunandi nýtingu og verðmætasköpun.

Við lítum á íslenskan markað sem hinn fullkomna tilraunamarkað og þar mótum við framtíðarsamstarf með viðskiptavinum, sem veita okkur dýrmæta kjölfestu til útrásar. Okkar yfirlýsta stefna er að nema ný lönd og skapa okkur sess á alþjóðlegum markaði.

Á nýja árinu munum við halda áfram að vinna einbeitt að því að skapa okkur  farveg þangað.

Að koma Snjallgögnum á kortið

Eitt af markmiðum ársins var að koma Snjallgögnum á kortið á meðal þeirra sem starfa í upplýsingatækni og þeirra sem reka metnaðarfull stórfyrirtæki á Íslandi. Til að ná settu marki leituðum við til Þrettánellefu ehf. sem á sérstakar þakkir skildar fyrir að gera það með árangursríkum og hagkvæmum hætti.

Mikil þátttaka í uppákomum og viðburðum og öflug fræðslumiðlun um starfsemina og vörur fyrirtækisins hefur gert okkur kleift að ná þessu markmiði. Á nýju ári munum við bara bæta í.

Snjallvakan '24 og nýjar höfuðstöðvar

Síðastliðið haust buðum við annað árið í röð samstarfsaðilum, fjárfestum og vinum á Snjallvöku. Annars vegar er Snjallvakan skemmtileg uppákoma þar sem við kynnum árangur ársins og tölum smávegis um hvert við stefnum. Hins vegar lítum við á hana sem tækifæri fyrir fólk úr sprotasenunni til að koma saman, efla tengsl og stappa stálinu í hvort annað.

Þennan sama dag hlóðum við síðan í innflutningspartý að Laugarvegi 11, en þar höfum við komið okkur fyrir í nýuppgerðu húsnæði sem við erum stolt af og ánægð með.

Frábær dagur í alla staði

Aðeins nánar um höfuðstöðvarnar: Það skiptir okkur máli að hafa eignast gott heimili, þangað sem gott er að bjóða í heimsókn og öllum líður vel.

Á veggjunum er að finna 5 verk sem við þróuðum í sameiningu. Ingi Freyr Atlason fullkomnaði þau síðan og hrinti í framkvæmd. Hverju verki fylgir lítil saga sem við deilum með þeim sem koma í heimsókn. Þér er tvímælalaust boðið í kaffi á árinu ef þú sendir okkur línu!

Heilbrigður vöxtur til sjálfbærni

Engin samantekt er fullkomnuð án örlítils drambs sem stutt er af gögnum.

Það hefur gengið einstaklega vel frá því að við settum í annan gír um mitt ár og þá fóru hlutir að gerast eins hratt og við treystum okkur til að ráða við.

Árið 2023 var 14-faldur vöxtur frá árinu 2022, enda hafði árið þar á undan svo sem einkennst af upphafsþróun án mikillar sölu eða auðseljanlegrar vöru. Árið 2024 komu 70% af tekjum Snjallgagna á síðari helmingi ársins. Þrátt fyrir það jukust tekjur um 400% milli 2023 og 2024.

Með þessum mikla vexti náðum við að gera reksturinn sjálfbæran og sá árangur veitir okkur tækifæri til að þroskast áfram á traustum rekstrargrundvelli.

Ársvelta Snjallgagna árið 2024 var 125 milljónir króna og 13 samstarfsmenn fögnuðum nýju ári saman.

Það er rétt að þakka öllum þeim sem hafa sýnt trú á okkur í verki og sérstaklega þeim sem gerðu það á meðan áhættan af því að veðja á lítið sprotafyrirtæki var meiri.

Tekjuvöxtur er ekkert meginmarkmið í sjálfu sér, en hann heldur áfram að vera kærkomin afleiðing af því að við erum að þróa réttu vöruna á réttum tíma.

Varan heldur áfram að þroskast

Context Suite heldur áfram að vaxa og þroskast og ástæða er til að tína til fjóra meiriháttar áfanga, sem nú eru í húsi.

Skiljanleg og upplýsandi mælaborð – þar sem gögnum er breytt í aðgerðabærar upplýsingar – eru ekki á hverju strái, en með Context Suite geta óþjálfaðir notendur nú þjónustað sig á eigin spýtur með fljótlegum og skilvirkum hætti.

Raddstýrt notendaviðmót – þar sem hægt er að tala við gögn og myndræna framsetningu þeirra – var einn af þeim hlutum sem við náðum tökum á á árinu. Það er magnað hvað gerist þegar mál og hefðbundin samskipti eru nýtt til samskipta við gögn og hugbúnaðarlausnir.

Eftir mikla vinnu undanfarið ár mun myndrænt viðmót fyrir gervigreindarþjónustu og greiningar gera viðskiptavini sjálfbæra við uppsetningu og rekstri kerfisins. Þetta opnar einnig fyrir það að þriðju aðilar – eins og ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni – geti þjónustað fyrirtæki sem nota Context Suite. Við sjáum það sem mikilvægan þátt í að búa til sölu- og þjónustunet á heimsvísu.

Með einfaldri aðlögun og auðstillanlegum þjónustukostum verða flóknari greiningar aðgengilegar fyrir viðskiptavini. Það skiptir höfuðmáli að Context Suite hegði sér ekki eins og svartur kassi að þessu leyti og að viðskiptavinurinn sé ætíð í bílstjórasætinu.

Markmið nýs árs

Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið fyrir nýja árið sem reynist vonandi gjöfult eins og þetta nýliðna ár.

Við ætlum að festa okkur í sessi sem framsæknasta sprotafyrirtæki landsins.

Við ætlum að halda áfram að efla og þroska vöruna okkar í samvinnu við margbreytilega og krefjandi viðskiptavini.

Við ætlum að hefja sölu á Context Suite erlendis.

Með einfaldri aðlögun og auðstillanlegum þjónustukostum verða flóknari greiningar aðgengilegar fyrir viðskiptavini. Það skiptir höfuðmáli að Context Suite hegði sér ekki eins og svartur kassi að þessu leyti og að viðskiptavinurinn sé ætíð í bílstjórasætinu.

Á árinu munum við jafnframt loksins sameina það sem Snjallgögn gerðu með Quick Lookup og ytri gögnum að fullu inni í Context Suite. Með því lokast hringur sem mun veita Context Suite sérstöðu þegar kemur að gervigreind með aðstæðuvitund (Contextual and Situational Awareness). Þar með gerum við líka mögulega sjálfvirka auðgun viðskiptagagna með réttum ytri gögnum og það mun vafalítið opna nýjar dyr.

Við höldum svo áfram að efla hópinn okkar, bæði hér og erlendis. Endilega settu þig í samband ef þig langar að vera með í metnaðarfullri vegferð þar sem rekstur fyrirtækja og stofnanna er stórlega bættur eða jafnvel umbylt með hagnýtri gervigreind.

Þetta er langferð sem er bara rétt að byrja!

Við erum þakklát fyrir árangur og tækifæri sem 2024 færðu okkur og horfum vongóð til framtíðar.

Fjölskyldan í Snjallgögnum þakkar lesturinn og óskar fólki alls hins besta í leik og starfi á nýju ári