Vörur

Fyrirtækið

Hafa Samband

Vörur

Fyrirtækið

Hafa Samband

Vörur

Fyrirtækið

Hafa Samband

Stefán Hrafn Hagalín

Samskiptaráðgjafi

Dýrmætar æfingabúðir fyrir Snjallgögn

Mímir knýr nýja Lindu hjá Halló ehf.

Halló ehf. hefur nú sett á markað þjónustulausnina Lindu, en það er ný leið sem er ætlað auka ánægju viðskiptavina með aðstoð gervigreindar. Linda samanstendur af þremur þjónustuþáttum: þekkingargrunni sem er sérsmíðaður fyrir hvern viðskiptavin, snjallmenni með málskilning og talfærni sem byggir á gervigreindarbúnaði frá Snjallgögnum ehf. og mannlegri svörun sem byggir á áratuga reynslu af þjónustu Halló. Stjórnendur Snjallgagna segja þetta þróunarsamstarf við Halló vera dýrmætar æfingabúðir fyrir markaðssókn fyrirtækisins.

DÝRMÆTAR ÆFINGABÚÐIR

"Samstarfið við Halló er sögulegur áfangi í rekstrinum hjá Snjallgögnum. Það að önnur fyrirtæki geta núna selt og þjónustað okkar hugbúnað er til dæmis mikilvæg leið fyrir okkur inn á erlenda markaði og því gagnlegt að fá að prófa það – í minni skala – hér heima. Hér á ferð er vitaskuld þróunarsamstarf eins og best verður á kosið og þetta verða dýrmætar æfingabúðir fyrir alla okkar markaðssókn, hér heima sem erlendis," segir Óli Páll Geirsson, framkvæmdastjóri gagnavísinda hjá Snjallgögnum.

HAGNÝT GERVIGREIND

„Við hjá Snjallgögnum þróum lausnir sem gera vinnustöðum mögulegt að hagnýta gervigreind og gagnavísindi til að efla sölu og þjónustu ásamt því að bæta daglegan rekstur. Lykilvara okkar er gervigreindarkerfið Context Suite, sem er safn hugbúnaðarlausna og inniheldur meðal annars þjónustugreind, eftirspurnargreind og snjallmennið Mími, en hann er einmitt náskyldur ættingi Lindu hjá Halló og með háþróaðan málskilning og talfærni. Það er mikil tilhlökkun hjá okkur gagnvart þessu samstarfi," segir Stefán Baxter, forstjóri Snjallgagna.

BYLTING Í ÞJÓNUSTU

„Linda mun umbylta því hvernig fyrirtæki veita viðskiptavinum þjónustu. Hún byggir á gervigreind og er að okkar mati mun betri en fyrri tilraunir til þess að sjálfvirknivæða svörun. Þegar ég prófaði tilraunaútgáfuna af Lindu, þá vissi ég strax að við stæðum á merkilegum tímamótum. Nú þegar eru fimm viðskiptavinir okkar að fá Lindu  til prófana og það er mikil spenna í loftinu," segir Tinna R. Freysdóttir, framkvæmdastjóri Halló.

ÁRATUGA ÞJÓNUSTUREYNSLA

Halló ehf. hefur annast símsvörun, svarað netspjalli, skilaboðum og tölvupóstum fyrir íslensk fyrirtæki um langt árabil. Halló er með starfsstöðvar í Reykjavík og á Ísafirði auk þess sem margt starfsfólk fyrirtækisins er í fjarvinnu að heiman á Íslandi og erlendis. Halló hefur á að skipa þrautreyndu þjónustufólki og sérfræðingum í skipulagi gagna. Halló var áður hluti af rekstri Miðlunar ehf. um 20 ára skeið, en hefur verið sjálfstæður rekstraraðili undir nafninu Halló síðan 2022.

EINFÖLD INNLEIÐING

Að sögn Tinnu er nokkuð einföld framkvæmd að innleiða Lindu. „Ferlið er þannig að Halló setur upp þekkingargrunn og velur þær upplýsingar sem eiga að vera grundvöllur svörunar, stillir svo af snjallmennið og upplýsir að lokum eigið starfsfólk um nýjan viðskiptavin. Eftir það er hægt að byrja að svara. Þegar tengja þarf Lindu við stærri gagnasöfn, þá vinnur starfsfólk Snjallgagna verkið. Linda byggir auk þess á tækni frá alþjóðafyrirtækinu Talkdesk, sem hefur verið samstarfsaðili Halló til margra ára, meðal annars til þess að tryggja samfelldan þjónustustraum eða svokallaða omni-channel og svörunarvörur byggðar á gervigreind," bætir Tinna við.

Frá vinstri til hægri eru Óli Páll Geirsson framkvæmdastjóri gagnavísinda hjá Snjallgögnum, Tinna R. Freysdóttir framkvæmdastjóri Halló og Stefán Baxter forstjóri Snjallgagna.