Stefán Hrafn Hagalín
Samskiptaráðgjafi
Raðfrumkvöðull, eðlisfræðingur og gagnavísindamaður labba inn á bar…
Rætt um Snjallgögn og hagnýtingu gervigreindar við Stefán Baxter, Inga Frey Atlason og Óla Pál Geirsson
Snjallgögn er tíu manna hugbúnaðarfyrirtæki í Reykjavík, sem var stofnað árið 2018. Snjallgögn þróar hugbúnaðarlausnir sem gera vinnustöðum af öllum stærðum og gerðum mögulegt að hagnýta gervigreind og gagnavísindi til að efla sölu og þjónustu ásamt því að bæta daglegan rekstur og stuðla þar að umbreytingum og nýsköpun. Við ræðum hér við þrjá af stofnendum fyrirtækisins, þá Stefán Baxter framkvæmdastjóra, Inga Frey Atlason markaðsstjóra og Óla Pál Geirsson leiðtoga gagnavísindateymis. Yfirskrift samtalsins er kímin en tyrfin að hætti hússins: Raðfrumkvöðull, eðlisfræðingur og gagnavísindamaður labba inn á bar…
RAÐFRUMKVÖÐULLINN
Stefán Baxter er gagnasérfræðingur og raðfrumkvöðull sem hefur 35 ára reynslu af hugbúnaðarþróun og upplýsingatækni. Hann hefur allt frá árinu 2013 helgað sig hagnýtingu gagna og gervigreindar til að bæta daglegan rekstur fyrirtækja.
RAUÐI ÞRÁÐURINN
"Lykilvara Snjallgagna er alhliða gervigreindarkerfið Context Suite sem inniheldur meðal annars þjónustugreind, eftirspurnargreind og snjallmennið Mími. Þetta eru fjölbreyttar og fjölhæfar lausnir og viðskiptavinir Snjallgagna eru meðal annars Arctic Adventures, Bónus, Nova og RARIK. Mjög ólíkir vinnustaðir innbyrðis og verkefnin sem við vinnum þá eru mismunandi, en eru þó öll með gervigreindarlausnir og gagnavísindi sem rauðan þráð," segir Stefán.
RÁÐAGOTT LEIÐSÖGUFÓLK
"Ég vil ganga svo langt að fullyrða að gervigreindin geri það að verkum að næsti áratugur feli í sér meiri breytingar en við höfum séð síðustu hundrað árin og ég er með internetið og mögulega líka rafmagnið innifalið í þeirri yfirlýsingu. Okkar hlutverk er að staðsetja okkur sem ráðagott leiðsögufólk fyrir stjórnendur og vinnustaði til að aðstoða þau við að hagnýta gervigreindina og alla hennar kosti með réttum og ábatasömum hætti," bætir Stefán við.
EÐLISFRÆÐINGURINN
Ingi Freyr Atlason er eðlisfræðingur og hönnuður að mennt. Ingi Freyr kemur víða við í starfseminni hjá Snjallgögnum, enda hefur hann áratugareynslu af vörumerkjastjórn og markaðsstarfi hér heima og erlendis. Hann hefur sömuleiðis bakgrunn í rannsóknarstörfum og gagnagreiningum. Ingi Freyr stýrir markaðsmálum Snjallgagna, ásamt því að taka virkan þátt í viðmótshönnun og framþróun lausnasafns fyrirtækisins.
MIKIL ARÐSEMI
"Í verkefnum okkar erum við að taka tækni sem er ekki alltaf mjög aðgengileg og gera hana afar auðvelda í notkun með því að samtvinna hana við aðrar tæknilausnir og tækniumhverfi vinnustaða. Arðsemi fjárfestinga atvinnulífsins í gervigreind er mjög mikil og sífellt fleiri hafa kveikt á þeirri mikilvægu peru og stokkið í kjölfarið á vagninn," segir Ingi Freyr.
AÐSTÆÐUVITUNDIN
"Viðskiptavinir okkar nota Context Suite til að þróa hárnákvæm spálíkön og finna hentugar leiðir til að auka sölu, styrkja þjónustu, draga úr kostnaði og bæta daglegan rekstur. Með auðgun söluspár með ýmsum ytri þáttum sem hafa áhrif á eftirspurn verður til nokkuð sem við viljum kalla aðstæðuvitund. Þess háttar fyrirsjáanleiki kemur í veg fyrir tapaða sölu vegna vöntunar, finnur dulin sölutækifæri, dregur úr birgðakostnaði, og stillir innkaup af. Þannig eykur aðstæðuvitund rekstrarhagkvæmni, opnar möguleika á eftirspurnarstýrðri verðlagningu , bætir ákvarðanatöku um innkaup og birgðastjórn, auk þess að styðja við sjálfbærnisstefnu með því að draga úr sóun."
ÞRÓUNARSAMSTARF
"Aðgengi að sérvöldu safni gervigreindalausna, umfangsmiklum gagnasöfnum, og auðskiljanlegum rauntímamælaborðum okkar, betrumbætir nú þegar greiningargetu fjölda fyrirtækja og við erum ákaflega stoltir af þessum samstarfsaðilum okkar, enda ræðum við gjarnast um okkar sameiginlegu verkefni sem þróunarsamstarf," segir Ingi Freyr að lokum.
GAGNAVÍSINDAMAÐURINN
Óli Páll Geirsson er leiðtogi gagnavísindateymis Snjallgagna og sinnir þar annars vegar þróun og rekstri gervigreindarlausna og hins vegar uppbyggingu gagnavísindateymis fyrirtækisins. Hann er með doktorsgráðu í tölfræði frá Háskóla Íslands og B.Sc. gráðu í stærðfræði frá sama skóla og hefur víðtæka reynslu af samsetningu og stjórn gagnateyma í atvinnulífinu.
STÆRSTA ÁSKORUNIN
"Vitaskuld er helsta áskorunin í rekstri Snjallgagna um þessar mundir að halda í við leifturhraða tækniþróun á sviði gervigreindar og tryggja að við séum stöðugt að nýta nýjustu tækni og aðferðir í gagnavísindum til að hámarka virði gagna fyrir okkar viðskiptavini. Við hefjum því verkefni alltaf á því að ganga úr skugga um að gagnainnviðir séu í stakk búnir til að styðja við gervigreindarlausnir," segir Óli Páll.
TRAUSTIR GAGNAINNVIÐIR
"Atvinnulífið stendur nú frammi fyrir þeirri staðreynd að gervigreind hefur umbreytt landslaginu og opnað dyr fyrir ótal ný tækifæri í gagnadrifnum rekstri; tækifæri sem hafa alla burði til að valda straumhvörfum á flestum vinnustöðum. Við vinnum hörðum höndum með okkar viðskiptavinum að nýta þessi tækifæri til fulls. Í þeim efnum er mikilvægast að byggja upp trausta gagnainnviði innan fyrirtækja, séu þeir ekki til staðar nú þegar. Góð gervigreind er nefnilega aðeins eins öflug og gögnin sem hún vinnur með."
FRAM ÚR VÆNTINGUM
"Hagnýtar gervigreindarlausnir Snjallgagna miða að því að að bæta gæði í þjónustu og auka skilvirkni í rekstri, en þær hafa líka ákveðna hæfileika til að fara fram úr væntingum og koma til dæmis auga á dulin sóknarfæri í rekstri, leggja til úrbætur og umbreytingar á starfsemi og stuðla að nýsköpun. Þetta á ekki síst við opinbera vinnustaði, sem geta hæglega notað gervigreindina til að auðga þjónustu sína við almenning og vera drifkraftur umbóta í opinberum rekstri," segir Óli Páll að lokum.