Stefán Hrafn Hagalín
Samskiptaráðgjafi
Þorsteinn Yngvi í stjórn Snjallgagna
Þorsteinn Yngvi Guðmundsson hefur tekið sæti sem óháður stjórnarmaður í stjórn Snjallgagna.
Þorsteinn Yngvi Guðmundsson hefur tekið sæti sem óháður stjórnarmaður í stjórn Snjallgagna. Í stjórn félagsins eru fyrir á fleti þau Bala Kamallakharan fyrir hönd Founders Ventures, Halldóra Guðlaug Steindórsdóttir óháður stjórnarmaður, Kristján Ingi Mikaelsson fyrir MGMT Ventures og Linda Björk Ólafsdóttir fyrir Tennin.
Þorsteinn Yngvi starfar hversdags sem framkvæmdastjóri rekstrar og fjármála hjá Grid þar sem hann er jafnframt meðstofnandi. Auk þess að vera stjórnarformaður heilbrigðistæknifyrirtækisins Leviosa sinnir Þorsteinn Yngvi ráðgjafastörfum hjá Klak, sem hefur það hlutverk að styðja við samfélag frumkvöðla á Íslandi. Hann var áður lykilstjórnandi hjá vinnustöðum á borð við Qlik, DataMarket, Industria, Icelandair, Hugsmiðjunni, Eskli, Oz og Hugsandi mönnnum.
GESTSAUGA REKSTRARMANNS
„Þorsteinn Yngvi á að baki langan og farsælan feril í íslenskum þekkingariðnaði. Hann er sá rekstrarmaður í sprotageiranum sem ég horfi mest til þegar kemur að því að gera réttu hlutina rétt. Hann hefur víðtæka reynslu af rekstri sprotafyrirtækja, meðal annars á sviði fjármögnunar og stjórnhátta, en ekki síður af öðrum praktískum atriðum á borð við markaðsmál, samskipti og samningagerð. Hann kemur með mikilvægt gestsauga rekstrarmannsins inn í bakhjarlahóp Snjallgagna. Í þessu samhengi langar mig að nefna á persónulegum nótum, að það gleður mig sérstaklega að fá að vinna aftur með Þorsteini Yngva í þessu samhengi eftir 23 ára aðskilnað, en okkar leiðir lágu saman um hríð hjá sprotafyrirtækinu Hugsmiðjunni upp úr aldamótum,“ segir Stefán Baxter, forstjóri Snjallgagna og einn stofnenda fyrirtækisins.